Fiskás hefur verið rekið á Hellu frá árinu 2010.
Það er frábær þjónusta að eiga möguleika á því að versla ferskan fisk alla daga vikunnar fyrir íbúa hafnlauss sveitarfélags. FISKÁS á Hellu fagnar 10 ára afmæli á þessu ári og hefur fest sig í sessi á Hellu sem framúrskarandi fiskverkun og fiskbúð. Fiskás er í dag í eigu Torfa, Olgu og Helga.
Upphaf Fiskás var að menn sáu tækifæri í því að gríðarlegt magn af fiski var að veiðast í Rangánum sem svo fór út fyrir svæðið til verkunar. Þegar hugmyndin var að gerjast komust þau á snoðir um reykofn sem fékkst keyptur og segja má að húsnæðið hafi verið byggt utanum reykofninn. Áfram þróaðist hugmyndin og fljótlega varð ljóst að til þess að hægt væri að byggja upp starfsemi þyrfti líka að vera eitthvað að gera yfir vetrartímann og því ákveðið að fara í hvítan fisk samhliða, það var þó ekki hugsunin í upphafi. En verkun á hvítum fiski leiddi af sér fiskborðið sem margir íbúar þekkja.
Mest áberandi þjónusta Fiskás við íbúa sveitarfélagsins er fiskborðið sem samanstendur af tilbúnum fiskréttum, fiskibollum, bleikjuflökum og úrvali af hvítum fiski alla virka daga allt árið um kring.
Fiskás selur fisk til fyrirtækja og einstaklinga á suðurlandi. Í verkun hefur Fiskás þó orðið sérstöðu í flökun og beinhreinsun á lax og silung en veiðimenn hvaðan af af suðurlandi hafa komið með fisk til þeirra til verkunar og má segja að sú vertíð standi yfir frá júlí og fram að jólum. Fiskás full vinnur fiskinn og getur skilað honum ferskum, reyktum eða gröfnum, vakúm pökkuðum.
Fiskás er í sífelldri vöruþróun með það að markmiði að nýta afurðirnar til hins ýtrasta. Um nokkurt skeið hefur verið boðið uppá bleikju- og laxaborgara sem eru skemmtileg tilbreyting frá hinum almennu hamborgurum. Einnig er nú á lokastigum í undirbúningi Ketó-laxa buff.
Í Fiskás færðu allan þann fisk sem þú þarft. Fyrir utan þennan hefðbundna fisk fást þar reglulega frosnar risarækjur, humar, blandað sjávarfang og fleira. Alltaf er til hákarl. Einnig er fyrir jólin fyrirtaks Síld frá Djúpavogi.
Kjöt frá Sláturhúsinu á Hellu fæst einnig í versluninni og má þar finna saltað hrossakjöt ásamt úrvali af nauta- og hrossasteikum.
Nú fyrir jólin er Fiskás í fyrsta skipti með markað í Jólaþorpinu í Hafnarfirði en þar verður til sölu reyktur-, grafinn- og ferskur lax sem og laxa- og bleikjuborgarar. Hægt er að hafa samband við Fiskás og geta þeir sent fisk hvert á land sem er.
Fiskás er á Facebook, Fiskás er opið alla virka daga frá kl. 10-17.
Fleiri fréttir og umfjallanir um fyrirtæki í Rangárþingi ytra má nálgast í nýjasta fréttabréfi sveitarfélagsins.
Fleiri myndir má nálgast á Facebook síðu Rangárþings ytra.