Einar Bárðarson hefur tekið til starfa sem Framkvæmdastjóri Sorpstöðvar Rangárvallasýslu bs. Einar er með starfsaðstöðu á móttökustöð Sorpstöðvarinnar á Strönd. Helstu verkefni Einars verða umsjón með rekstri og þróun Sorpstöðvar Rangárvallasýslu bs. og að sinna störfum móttökustöðvarinnar á Strönd og grenndarstöðva. Einnig mun hann hafa umsjón með sorphirðu og rekstri og viðhaldi bifreiða og véla auk starfsmannamála.
Einar er 40 ára gamall og hefur búið með fjölskyldu sinni í Vík í Mýrdal undanfarin ár. Einar er rafeindavirki en hefur einnig meirapróf og vinnuvélaréttindi. Einar starfaði áður við alhliða verktakastarfsemi hjá FB lögnum en sinnti áður viðhaldi dælubúnaðar hjá Olíudreifingu um árabil og fasteignaumsjón hjá Skaftárhreppi. Þá átti Einar og rak Krásir ehf og sinnti þar búrekstri og vöruflutningum. Hann hefur starfað sem bílstjóri við vöruflutninga hjá AVP ehf og olíudreifingu hjá Skeljungi ehf. auk þess að sinna sjúkraflutningum í Vík og Klaustri. Þá var Einar framkvæmdastjóri hjá Jeppar og Allt ehf. og starfaði einnig sem leiðsögumaður. Einar hefur verulega reynslu af félagsmálum, sat í sveitarstjórn Mýrdalshrepps og var formaður Björgunarsveitarinnar í Vík um árabil.
Einar er boðinn velkominn til starfa.