Dynskálar 51 - Opið hús 12. maí 2024

 

Líkt og flest hafa eflaust tekið eftir er risið stærðarinnar atvinnuhúsnæði í útjaðri Hellu, við Dynskála 51.

 

Um er að ræða rúmlega 1100 fermetra hús sem skiptist í 8 bil. Hvert bil er 144,5 fm að stærð með tveimur innkeyrsluhurðum og möguleika á að stúka af 42,5 fm., til dæmis til útleigu.

 

Bilin eru nú til sölu og ætlar fyrirtækið sem stendur að baki verkefninu, GG. Tré, að halda opið hús 12. maí næstkomandi frá kl. 13–15 þar sem öllum býðst að koma og skoða húsnæðið.

 

Hvers vegna á Hellu

Eigendur GG. Tré eru Haukur Friðriksson og Hannes Kristinn Gunnarsson. Fyrirtækið hóf starfsemi árið 2021 og hefur fengist við ýmis verkefni. Það stóð til dæmis fyrir byggingu tæplega 1900 fermetra atvinnuhúsnæðis á Selfossi sem þjónar nú margskonar starfsemi. Þar eru t.a.m. iðnaðarmenn, verkstæði, þvottahús og geymslur. Aðspurður segir Hannes Kristinn að það verkefni hafi lukkast vel og gaman hafi verið að fylgjast með fjölbreyttum hópi fólks byggja upp rekstur á Suðurlandi.

 

Hannes segir að þeir hafi upphaflega ákveðið að byggja á Hellu eftir að aðilar á svæðinu bentu þeim á að atvinnu- og iðnaðarhúsnæði vantaði á Hellu og hvöttu þá til verksins. Hann segir einnig að vegna þess hve ör þróunin hefur verið og mikil fjölgun íbúa á Suðurlandi hafi þeim fundist full innistæða fyrir auknum framkvæmdum á Hellu

 

Nánar um húsið

Bilin í húsinu geta hentað undir iðnaðarstarfsemi hvers konar, þar á meðal ferðaþjónustu, vélaviðgerðir og/eða framleiðslu. Auðvelt er að sameina bil en einnig er auðvelt að skipta bilum upp í smærri einingar sem hægt væri að leigja frá sér ef eigandinn þarf ekki allt húsnæðið. Hannes nefnir að þeim hafi þótt nauðsynlegt að byggja hús sem skipt væri niður í nokkur sérstæð bil til að fyrirtæki gætu komið sér fyrir á Hellu. Þeirra von er að þetta hafi jákvæð áhrif á val fyrirtækja sem eru að leita sér að húsnæði á Suðurlandi og jafnvel flytji á Hellu í framhaldinu.

 

Næstu verkefni

Hannes og félagar hjá GG. Tré hafa í nógu að snúast en næsta verkefni þeirra er bygging fimm íbúða raðhúss á Hellu. Hann segir þau spennt fyrir að byrja á uppbyggingu á íbúðum í bland við atvinnuhúsnæði og að þeim finnist mjög nauðsynlegt að byggja fleiri íbúðir svo sveitarfélagið geti stækkað og boðið upp á aukna möguleika á mismunandi atvinnutækifærum.

 

Hér er tengill á viðburðinn

 

Myndir af innanrými hússins:

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?