Undanfarið hefur borið töluvert á umferð bifhjóla um Aldamótaskóginn austan Hellu. Sveitarfélagið vill minna á að umferð slíkra ökutækja um svæðið er bönnuð og það sama á við um önnur skógasvæði innan sveitarfélagsins, þar á meðal Bolholtsskóg á Rangárvöllum.
Öryggi ógnað
Það er ekki síst vegna öryggissjónarmiða sem umferð bifhjóla er bönnuð á slíkum svæðum. Aldamótaskógur er mikið nýttur af íbúum svæðisins til útiveru. Þangað fer fólk á öllum aldri gangandi, á reiðhjóli og hestum og ljóst er að hröð umferð bifhjóla er ekki aðeins stórhættuleg þeim sem nýta skóginn heldur veldur hún einnig miklu ónæði vegna hljóðmengunar.
Glæsileg aðstaða í næsta nágrenni
Í fyrrasumar opnaði stór og flott mótorkrossbraut rétt utan Hellu sem vonir stóðu til að myndi uppfylla þörf bifhjólaeigenda fyrir æfinga- og keppnissvæði og taka fyrir óheimila umferð bifhjóla á svæðinu.
Sveitarfélagið lagði mikið til verkefnisins sem skilaði sér í stórglæsilegu svæði sem nýtist öllum aldurshópum og er málaflokknum til sóma.
Við viljum því biðla til ökumanna og aðstandenda þeirra að nýta þetta glæsilega aksturssvæði en halda sig frá Aldamótaskógi og öðrum svæðum þar sem umferð bifhjóla á ekki heima og er óheimil.
Gerum þetta saman og höfum öryggið í fyrirrúmi.
Nánar má lesa um mótorkrossbrautina í þessari grein