Í vetur fer fram í íþróttahúsinu á Hellu öflug og skemmtileg heilsuefling fyrir sextíu ára og eldri undir merkjum Heilsueflandi samfélags í Rangárþingi ytra.
„Ég byggi tímana svolítið upp þannig að við séum að gera styrktar- og þolæfingar saman. Við vinnum mjög mikið með lóð og teygjur og vinnum allar æfingarnar saman,“ segir Drífa Nikulásdóttir, sem hefur séð um heilsueflinguna fyrir 60+ síðan í fyrrahaust. Drífa er ÍAK einkaþjálfari og stundar nám frá FÁ á heilsunuddbraut.
Taka pásu til að spjalla
Drífa segir að félagslegi þátturinn sé ekki síður mikilvægur en sá líkamlegi.
„Í upphafi tímans röðum við saman stólum og við byrjum alla tíma á að setjast og spjalla. Svo þegar við erum tilbúin þá byrjum við á upphitun. Við tökum okkur reglulega pásu frá æfingunum og setjum niður og spjöllum. Þannig að þetta er skemmtilegt - þetta er bæði félagslegt og gaman.“
Hópurinn æfir tvisvar í viku og er hver æfing sirka 40-50 mínútur. Að meðaltali mæta 24 þátttakendur í tímana og eru konur þar í meirihluta. Drífa hvetur fólk til að halda áfram að vera duglegt að mæta.
„Það eru allir velkomnir og þetta hentar öllum. Þó að einhver geti gert eina æfingu þá er ekkert víst að næsti maður geti gert hana, þannig að ég byggi þetta svolítið þannig upp að það sé ekkert mál að gera einhverja aðra æfingu í staðinn. Viðkomandi gerir bara það sem hann getur. Það er engin kvöð.“
Allir velkomnir
Það er oft mikið stuð í tímunum hjá Drífu. „Hópurinn sem ég hef verið með á Hellu er alveg frábær, það eru allir svo kátir og þetta er svo skemmtilegt. Þannig að ég myndi alltaf hvetja fólk til þess að koma og þó svo að það sé ekkert mikið að taka þátt. Það er alltaf tónlist í tímunum. Skemmtileg eldri lög eins og með Ragga Bjarna, Hemma Gunn og Ðe lónlí blú bojs. Við notum til dæmis oft lagið Út á gólfið þegar við gerum hliðarskref með teygjum, við stefnum á flottan þorrablótsdans. Þetta lag er orðið ákveðin festa í tímunum,“ segir Drífa hlær.
Það er augljóst að Drífu þykir vænt um hópinn sinn. „Mér finnst þetta alveg ofboðslega skemmtilegt verkefni að vinna með þessum flotta hóp. Þetta er alveg rosalega gefandi. Ég er svo að byrja með tíma á Hvolsvelli í vetur. Þar verða æfingar tvisvar í viku líkt og á Hellu. Fólk má endilega koma yfir og æfa þá fjórum sinnum í viku.“
Styrkurinn mikilvægur
„Það er rosalega mikilvægt fyrir alla að hreyfa sig til að halda líkamsstyrknum. Þetta er svo mikilvægt fyrir líkamann, beinin og bara allt saman. Þetta er partur af lífinu - að hreyfa sig. Þegar fólk er búið að mæta reglulega þá talar það um að það sé auðveldara að fara í sokkana á morgnana. Það skiptir svo miklu máli að hafa þennan styrk,“ segir Drífa að lokum.
Tímarnir fara fram á mánudögum og fimmtudögum og hefjast kl. 14:00, við hvetjum alla 60 ára og eldri til þess að mæta.