Hekluhestar
Hekluhestar bjóða uppá hestaferðir og gistingu. Fjölskyldan á sveitabænum Austvaðsholti hefur boðið uppá hestaferðir síðastliðin 40 ár. Fjölbreyttar ferðir eru í boði, allt frá því að prófa að fara á hestbak í fyrsta skiptið eða fara í 8 daga hestaferð um hálendi Íslands með rekstri.
Á sveitabænum er gistihús sem byggt var með víkingaskála í huga, þar sem baðstofuandinn svífur yfir vötnum og torfið yljar manni að hjartarótum. Gistihúsið er tilvalið fyrir litla hópa (12-14 manns), fjölskyldu og vini sem vilja njóta sveitakyrrðarinnar. Mikið er um afþreyingu á svæðinu, t.d. er hægt að fara í styttri og lengri reiðtúra, skreppa í saunu sem er við hlið gistihússins, heimsækja fjárhúsið og kíkja á sauðburðinn sem er í maí eða leita að eggjum í næsta nágrenni þar sem hænurnar vappa frjálsar um. Stutt er í stærstu papahella Íslands sem er mjög áhugavert að skoða og Rangáin rennur lygn með tærum fossum skammt frá bænum.



