Sláturhúsið á Hellu
Hlutafélagið Sláturhúsið Hellu hf. var stofnað 10. nóvember 2001. Að stofnun félagsins stóðu tólf bændur úr Rangárvallasýslu, Árnessýslu og V-Skaftafellssýslu ásamt Guðmari Jóni Tómassyni, sláturhússtjóra á Hellu og Þorgils Torfa Jónssyni fyrrum markaðs- og framleiðslustjóra Þríhyrnings hf.
Upphaflega var tilgangur félagsins rekstur sláturhúsa og afurðasala, verslunarrekstur, inn- og útflutningur, rekstur fasteigna, lánastarfsemi og annar skyldur atvinnurekstur. Búnaðarbankinn verðbréf undirritaði kaupsamning við Kjötumboðið hf. um kaup á eignum þess á Hellu og í Þykkvabæ fyrir hönd bænda. Um var að ræða pakkhús og stórgripasláturhús á Helllu og sauðfjársláturhús í Þykkvabæ.
Til að byrja með voru störf fyrir sex manns og fyrstu árin eftir stofnun þess var slátrað nautgripum, hrossum og svínum.
Árið 2011 var hafin bygging nýrrar aðstöðu fyrir kjötvinnslu fyrirtækins og var hún tekin í notkun fljótlega eftir áramótin 2012.
Vorið 2014 keypti Kaupfélag Skagfirðingan 60 prósenta hlut í Sláturhúsinu Hellu hf. en hin 40 prósentin eru í eigu bænda á starfssvæði fyrirtækisins og kjötvinnslna.
Í dag starfa hjá fyrirtækinu um 24 einstaklingar og megináherslan er á slátrun og vinnslu stórgripa, það er nautgripa og hrossa.