Leikskólinn Heklukot tók fyrst til starfa sumarið 1974 og var þá rekinn af kvenfélagi Oddakirkju sem starfrækti leikskólann á sumrin. Haustið 1976 tók Rangárvallahreppur við rekstrinum þar til í júní 2002 að Rangárþing ytra tók við.
Í nóvember 1989 fluttist leikskólinn að Útskálum 2 og voru deildirnar þá tvær; Bangsadeild og Fíladeild.
1. nóvember 2006 opnaði þriðja deildin; Trölladeild, að Útskálum 1 og 1. október 2007 opnaði fjórða deildin; Gljábær, í Þykkvabæ þar sem áður var rekinn grunnskóli Djúpárhrepps.
Byggðasamlagið Oddi starfar í umboði sveitarstjórna Rangárþings ytra og Ásahrepps. Fræðslunefnd fjallar um málefni skóla í sveitarfélaginu og eiga foreldrar og kennarar fulltrúa í nefndinni.
Á Heklukoti er fjöldi barna um 85 á hverju skólaári og fjöldi starfsfólks um 30 í breytilegu starfshlutfalli. Leikskólinn er staðsettur við Útskála 1-3 á Hellu.
Leikskólanum er nú skipt í fimm aldursskiptar deildir en fjöldi barna í árgangi ræður því hvar best er að hafa hann hverju sinni.
Deildir leikskólans eru Hrafnakot, Lundakot, Spóakot, Lóukot og Uglukot.
Leikskólinn er opinn frá 7:45-16:15 og getur dvalartími barnanna lengstur verið 8 1/2 klukkustund.