34. fundur 16. október 2024 kl. 09:00 - 09:20 Suðurlandsvegi 1-3
Nefndarmenn
  • Margrét Harpa Guðsteinsdóttir varaoddviti
  • Eggert Valur Guðmundsson oddviti
  • Þórunn Dís Þórunnardóttir aðalmaður
  • Eydís Þ. Indriðadóttir aðalmaður
  • Þröstur Sigurðsson varamaður
  • Björk Grétarsdóttir aðalmaður
  • Viðar M. Þorsteinsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri

1.Hvammsvirkjun. Umsókn um framkvæmdaleyfi

2409043

Lögð er fram beiðni Landsvirkjunar, dags. 13.09.24, um að umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir Hvammsvirkjun, dags. 14.12.2022, verði tekin til afgreiðslu. Fram kemur í beiðni Landsvirkjunar að þremur fylgiskjölum með umsókninni sé skipt út fyrir ný skjöl.

Eftirtalin gögn eru því lögð fram:
Umsókn Landsvirkjunar um framkvæmdaleyfi, dags. 14.12.2022.
Greinargerð með umsókn um framkvæmdaleyfi, dags. 13.9.2024
Teikningar og yfirlitsmynd af framkvæmd
Deiliskipulag Hvammsvirkjunar
Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar:
1.Umhverfismatsskýrsla frá 2003
2.Úrskurður Skipulagsstofnunar frá 2003
3.Úrskurður umhverfisráðherra frá 2004
4.Ákvörðun Skipulagsstofnunar um endurskoðun frá 2015
5.Endurskoðað umhverfismat frá 2017
6.Álit Skipulagsstofnunar frá 2018
Útgefin leyfi:
1.Leyfi Minjastofnunar Íslands, dags. 26.11.2021
2.Leyfi Fiskistofu, dags. 14.07.2022
3.Virkjunarleyfi vegna Hvammsvirkjunar í Þjórsá, dags. 12.9.2024, ásamt fylgiskjölum.
4.Heimild Umhverfisstofnunar til breytinga á vatnshlotinu Þjórsá 1, dags. 9. apríl 2024.

Sveitarstjórnir Rangárþings ytra og Skeiða- og Gnúpverjahrepps hafa látið taka saman greinargerð í samræmi við 13. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, vegna framkvæmdarinnar, dags. 14. júní 2023, uppfærð 4. október 2024, sem er jafnframt lögð fram.

Sveitarstjórn Rangárþings ytra samþykkir framlagða greinargerð sveitarfélagsins, í samræmi við 13. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, sbr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem umsögn sveitarstjórnar um framkvæmdarleyfisumsóknina.

Sveitarstjórn Rangárþings ytra hefur, eins og nánar er gerð grein fyrir og rakið í greinargerð sveitarfélagsins, kynnt sér umsókn, matsskýrslu og önnur framlögð gögn og telur framkvæmdina sem lýst er í umsókn og framlögðum skjölum vera í samræmi við skipulagsáætlanir, matsskýrslu, úrskurði og ákvarðanir vegna umhverfismats framkvæmdanna og önnur fyrirliggjandi gögn þ.m.t. greinargerð Landsvirkjunar með framkvæmdaleyfisumsókn.

Í framkvæmdinni felst, eins og nánar er lýst í framlögðum gögnum, uppbygging á virkjun í Þjórsá norður af Skarðsfjalli. Inntakslón hennar, Hagalón, verður í farvegi Þjórsár norður af Skarðsfjalli. Lónið verður í um 116 m y.s. og um 4 km2 að stærð. Rúmmál lónsins verður um 13,2 milljónir rúmmetra. Stöðvarhús verður að mestu leyti neðanjarðar við norðurenda Skarðsfjalls, í landi Hvamms 1 í Landsveit. Fyrirhuguð Hvammsvirkjun er vatnsaflsvirkjun staðsett á vatnasviði Þjórsár og Tungnaár þar sem í dag eru sjö vatnsaflsstöðvar og verður virkjunin áttunda og neðsta stöðin. Hvammsvirkjun mun nýta allt að 352 m3/s rennsli og 32 m fall Þjórsár á um 9 km kafla frá svokölluðu Yrjaskeri, rétt ofan við bæinn Haga, og niður fyrir Ölmóðsey, austan við Þjórsárholt. Virkjunin nýtir miðlað rennsli Þjórsár frá lónunum ofar á vatnasviðinu. Hvammsvirkjun er staðsett í sveitarfélögunum Rangárþingi ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppi, og verða flest mannvirki innan sveitarfélagsmarka Rangárþings ytra. Gert er ráð fyrir að afl virkjunar verði 95 MW og árleg orkuvinnsla um 740 GWh.

Umsóknin um framkvæmdaleyfi var tekin fyrir í umhverfis-, hálendis- og samgöngunefnd sveitarfélagsins og lagðist nefndin ekki gegn veitingu leyfisins.

Umsóknin um framkvæmdaleyfi var tekin fyrir í skipulags- og umferðarnefnd sveitarfélagsins og lagði nefndin til við sveitarstjórn að umsóknin yrði samþykkt.

Með vísan til rökstuðnings í umsögn sveitarstjórnar samþykkir sveitarstjórn að gefið verði út framkvæmdaleyfi í samræmi við framlagða umsókn, fyrir hinni umsóttu framkvæmd, með þeim skilyrðum sem fram koma í greinargerð sveitarstjórnar og nánar er gerð grein fyrir í öðrum framlögðum gögnum s.s. varðandi mótvægisaðgerðir, vöktun og frágang vegna framkvæmdarinnar. Skipuð verði eftirlitsnefnd í samráði við framkvæmdaaðila og aðra leyfisveitendur. Eftirlitsnefndin hafi eftirlit með því að öllum skilyrðum sem framkvæmdinni hafa verið sett sé framfylgt. Eftirlitsnefndin hafi, ásamt skipulagsfulltrúa, eftirlit með því að framkvæmdin sé í samræmi við leyfi og fylgigögn leyfis. Nefndin skal skila af sér skýrslu til sveitarstjórnar um framkvæmd eftirlitsins við lok hvers áfanga framkvæmdarinnar. Verði skilyrðum vegna framkvæmdarinnar ekki framfylgt, ásigkomulag, frágangi, notkun eða umhverfi framkvæmdar eða eigin eftirliti framkvæmdaaðila ábótavant eða stafi af framkvæmdinni hætta skal eftirlitsnefndin tilkynna sveitarstjórnum Rangárþings ytra og Skeiða- og Gnúpverjahrepps þar um. Þá skal nefndin gera grein fyrir frávikum og tilkynna framkvæmdaraðila skriflega um frávik og kröfur til úrbóta.

Skipulagsfulltrúa Rangárþings ytra er falið, að uppfylltum skilyrðum, að gefa út framkvæmdaleyfi í samræmi við framangreint, ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerð nr. 772/2012.

ÞS tók til máls.

Samþykkt samhljóða.
Fylgiskjöl:

Fundi slitið - kl. 09:20.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?