Hreppsnefnd Rangárþings ytra
Fundargerð
- fundur hreppsnefndar Rangárþings ytra kjörtímabilið 2006 - 2010, haldinn að Suðurlandsvegi 1, Hellu, miðvikudaginn 7. mars 2007, kl. 16:00.
Mætt: Þorgils Torfi Jónsson, oddviti, Ingvar P. Guðbjörnsson, Gísli Stefánsson , Helga Fjóla Guðnadóttir, Sigfús Davíðsson, Guðfinna Þorvaldsdóttir og Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir. Að auki sitja fundinn Örn Þórðarson, sveitarstjóri og Óli Már Aronsson sem ritar fundargerð.
Oddviti bauð fundarmenn velkomna, setti fund og stjórnaði honum.
Borin upp tillaga um breytingu á dagskrá, liður 7.6. verði; Nemendafélagið Mímir, Laugarvatni, beiðni um húsnæði fyrir leiksýningu, liður 8. verði; Fyrirspurnir frá B-lista í 2 liðum til kynningar. Aðrir liðir færast aftar sem þessu nemur.
- Fundargerðir nefnda, ráða og stjórna til staðfestingar eða kynningar:
- Hreppsráð, 11. fundur, 22. febrúar 2007.
Fundargerðin er staðfest. Samþykkt samhljóða. - Skipulags- og byggingarnefnd, 6. fundur, 22. febrúar 2007-03-05.
Fundargerðin er staðfest. Samþykkt samhljóða. - Skólaskrifstofa Suðurlands, 92. fundur, 28. febrúar 2007.
Til kynningar. - Sorpstöð Suðurlands, 139. fundur, 22. febrúar 2007.
Til kynningar.
- Hreppsráð, 11. fundur, 22. febrúar 2007.
- Landskipti, sala á landi og landskikum, breytingar á landnýtingu og stofnun lögbýla:
- Svínhagi. Óskað er umsagnar um landskipti úr landi Svínhaga, landnúmer 164560 í 38.1 ha. lóð sem fær landnr. 210534 og heitið; Svínhagi HS14.
Ekki er gerð athugasemd við landskiptin. Samþykkt samhljóða. - Óskað er umsagnar um landskipti úr landi Pulu, landnúmer 202918 í 2 lóðir, 24,2 ha. landnr. lóðar; 208236 og 5,3 ha. lóð, landnr. 208237.
Ekki er gerð athugasemd við landskiptin. Samþykkt samhljóða. - Galtalækur. Óskað er umsagnar um landskipti úr landi Galtalækjar I, landnúmer 164973 í 23816 m2 lóð sem fær landnr. 207386 og heitið; Galtalækur lóð 1.
Ekki er gerð athugasemd við landskiptin. Samþykkt samhljóða.
- Svínhagi. Óskað er umsagnar um landskipti úr landi Svínhaga, landnúmer 164560 í 38.1 ha. lóð sem fær landnr. 210534 og heitið; Svínhagi HS14.
- Vegagerðin, samningur um kostnaðarskiptingu.
Lagður fram samningur um kostnaðarskiptingu á útboðsverki milli Vegagerðarinnar og Rangárþings ytra við gerð hringtorgs á Hellu, ásamt aðlögun gatna og lagna.
Samningurinn er staðfestur. Samþykkt samhljóða. - Byggingar- og skipulagsfulltrúaembætti Rangárþings bs., staðfesting samnings og skipan í stjórn.
Skrifað hefur verið undir stofnsamning og samþykktir fyrir nýtt byggðasamlag, “Byggingar- og skipulagsfulltrúaembætti Rangárþings bs.” sem á að taka við öllum skipulags- og byggingarmálum í Rangárvallasýslu. Fyrirvari er um staðfestingu sveitarfélaganna þriggja á samningnum.
B-listinn - Bókun vegna fyrirhugaðs byggðasamlags um skipulags- og byggingarmál.
B-listinn getur ekki greitt atkvæði með stofnun byggðasamlags um skipulags- og byggingarmál í Rangávallasýslu miðað við framlögð gögn. Ástæðurnar eru eftirfarandi:
Engin umræða hefur farið fram á sveitarstjórnarstiginu fram að þessu og er því tímasetningin mjög ótímabær.
b. Engin fagleg umfjöllun hefur farið fram um málið.
c. Eftirlitshlutverk sveitarfélagsins varðandi virkjanir í Þjórsá hefur ekki verið rætt. Hverju framkvæmdaleyfi fylgir eftirlitshlutverk sveitarfélagsins. Ekki ástæða að fara með inn í byggðasamlag.
d. Engann veginn er tryggt að störf hjá byggðasamlaginu verði auglýst og þar af af leiðandi sitja íbúar í
Rangárþingi ytra ekki við sama borð og aðrir í Rangárvallasýslu. Störf flytjast úr sveitarfélaginu.
B-listinn segir því nei við framlögðum stofnsamningi um byggðasamlag í skipulags- og byggingarmálum í Rangávallasýslu sem undirritað er nú þegar af oddvitum sveitarfélaganna þriggja, Ásahrepps, Rangárþngs eystra og Rangárþings ytra.
Guðfinna Þorvaldsdóttir, Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir, Sigfús Davíðsson.
Bókun fulltrúa D-listans á 11. fundi hreppsnefndar þann 7. mars 2007 vegna bókunar fulltrúa B-listans um stofnun byggðasamlags um skipulags- og byggingafulltrúaembætti í Rangárvallasýslu.
Fulltrúar D-listans geta ekki tekið undir þær athugasemdir sem fram koma í bókun B-listans að neinu leiti þar sem þær eru tilhæfulausar og órökstuddar.
Varðandi fyrsta punkt í bókun fulltrúa B-listans verður að hafna því algerlega þar sem haldnir hafa verið fundir um þessi mál og sveitarstjórnarmenn fengu boðun á þá fundi, annarsvegar á Laugalandi og hinsvegar á Hvolsvelli.
Varðandi annan punkt í bókun fulltrúa B-listans. Helstu fagmenn á þessu sviði í sýslunni, skipulags- og byggingafulltrúar allra sveitarfélaganna höfðu frumkvæði að málinu og tóku virkan þátt í mótun þeirrar hugmyndar sem stofnun þessa byggðasamlags byggir á. Þeir skiluðu tillögu til sveitarstjórnanna á síðasta ári sem kynnt var á framangreindum fundum. Sú tillaga var einnig tekin til umfjöllunar hjá núverandi sveitarstjórn sl. sumar að viðstöddum fulltrúum B-listans.
Varðandi þriðja punkt í bókuninni teljum við ríka ástæðu til, að í sýslunni sé öflugt skipulag- og byggingarfulltrúaembætti til að takast á við þær gríðarlegu framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru við virkjanir í Neðri-Þjórsá og eins við framkvæmd ferjuhafnar í Bakkafjöru ásamt þeim miklu skipulags- og byggingarframkvæmdum sem verið hafa og fyrirsjáanlegar eru á næstu árum.
Varðandi fjórða punkt í bókuninni hlýtur það að vera eðlilegt að til starfa hjá embættinu verði ráðnir hæfustu einstaklingarnir hverju sinni. Rangárþing ytra mun eiga fulltrúa í stjórn og fulltrúar D-listans treysta því að stjórnin ráði fólk til starfa á faglegum forsendum hverju sinni.
Stefna D-listans er að bæta þessa þjónustu fyrir íbúa og aðra framkvæmdaaðlia í sveitarfélaginu. Stofnun byggðasamlagsins er ætluð til þess að efla fagmennsku og skilvirkni í afgreiðslu skipulags- og byggingarmála.
Þorgils Torfi Jónsson, Ingvar P. Guðbjörnsson, Helga Fjóla Guðnadóttir, Gísli Stefánsson.
Að loknum umræðum var stofnsamningur og samþykktir fyrir byggðasamlagið borin upp til atkvæða.
Samþykkt með 4 atkvæðum (D-listi), 3 á móti (B-listi).
- Hali og Hali II, vegna rotþróa.
Ábúendur í Hala og Hala II fara fram á að sveitarfélgið komi fyrir rotþróm við bæina leins og samþykkt var af hálfu Djúpárhrepps á sínum tíma.
Erindið er samþykkt samhljóða og kostnaði vísað til endurskoðunar fjárhagsáætlunar. - Tjörvastaðaheiði, skipulagsmál.
Fyrirspurn um hvort heimilt sé að deiliskipuleggja spildu og byggja sumarhús á Tjörvastaðaheiði.
Sveitarstjórn áréttar að umrædd spilda er innan vatnsverndarsvæðis skv. gildandi aðalskipulagi og sér ekki fært að verða við erindinu.
Samþykkt samhljóða. - Fundarboð, ráðstefnur, námskeið, þjónusta og umsóknir um styrki:
- Trúnaðarmál. Fært í trúnaðarmálabók.
- Golfklúbbur Hellu, umsókn um styrk til greiðslu fasteignagjalda.
Tekið er jákvætt í erindið varðandi aðstöðu fyrir íþróttastarfsemi og sveitarstjóra falið að skoða málið og gera tillögu um styrk. Samþykkt samhljóða. - NKG, beiðni um samstarf vegna nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda.
Tillaga um að veita 20þús. kr. í verkefnið. Samþykkt samhljóða. - Jón Ágúst Reynisson, beiðni um styrk til kaupa á veðurstöð.
Erindinu er hafnað. Samþykkt samhljóða. - Fræðslunet Suðurlands, vegna Vísinda- og rannsóknasjóðs FnS.
Erindinu er hafnað. Samþykkt samhljóða. - Nemendafélagið Mímir, Laugarvatni, beiðni um húsnæði fyrir leiksýningu.
Tillaga um að verða við erindinu. Samþykkt samhljóða.
- Fyrirspurnir frá B-lista í 2 liðum til kynningar:
- Fyrirspurn 1. Landsmót hestamanna verður haldið á Gaddstaðaflötum árið 2008.
Hver er aðkoma sveitarfélagsins að undirbúningi landsmóts og hvar stendur málið?
Hver er aðkoma sveitarfélagsins að undirbúningi byggingar reiðhallar og hvaða áform eru um rekstur á mannvirkinu?
Hvaða faglega vinna er í gangi varðandi uppbyggingu Gaddstaðaflata? - Fyrirspurn 2. Umræða um framhaldsskóla í Rangárvallasýslu hefur gengið um samfélagið síðustu misserin. Hugmyndir meirihlutans sem heyrst hafa í því sambandi, svo sem umhverfisbraut, braut útivistar- og björgunarmála og hestabraut eru af hinu góða.
B-listinn fagnar þeim hugmyndum meirihlutans því þær eru eins og klipptar út úr stefnuskrá listans frá síðustu kosningum. Það er sama hvaðan gott kemur.
Hefur verið sett einhver vinna af stað á sýsluvísu og hvar stendur sú vinna?
Hver eru viðhorf ráðuneytis menntamála, viðhorf Fjölbrautarskólans á Suðurlandi, Menntaskólans á Laugarvatni?
Hefur staðsetning verið rædd og þá hvar?
Oddviti og sveitarstjóri gerðu munnlega grein fyrir málum varðandi fyrirspurnirnar og verður þeim svarað skriflega af þeirra hálfu á næsta hreppsráðs- eða hreppsnefndarfundi.
- Fyrirspurn 1. Landsmót hestamanna verður haldið á Gaddstaðaflötum árið 2008.
- Annað efni til kynningar:
- Leigutakar í Gaddstaðalandi, bréf.
- Lögreglan á Hvolsvelli, vegna lista yfir skála á hálendinu.
- Ásahreppur, vegna endurskoðunar nefndarlauna fyrir barnaverndarnefnd.
- Umhverfisstofnun, 5 bréf.
- Félagsmálaráðuneytið, vegna skila á fjárhagsáætlunum.
- Sýslumaðurinn á Hvolsvelli - tilkynningar um afsöl, kaupsamninga og yfirlýsingar varðandi eignir.
- Kynning á tillögum um næstu skref við hönnun og framkvæmdir á hesthúsahverfi gegnt Gaddstaðaflötum.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:30.
Óli Már Aronsson, fundarritari.