Reglurnar gilda um skráningu heimilaðra fjarvista starfsfólks á vinnutíma, bæði launaðra og ólaunaðra.

Markmið reglnanna er að samræma og skýra hvernig hátta má fjarvistum á vinnutíma. Starfsfólk skal leitast við að tímasetning persónulegra erinda sé utan vinnutíma hvort sem um er að ræða heimilaða launaða fjarvist eða heimilaða ólaunaða fjarvist og sinni einkaerindum í frítíma.

Hlutverk stjórnenda er að tryggja að tímaskráningar séu í samræmi við eftirfarandi reglur og kjarasamninga.

  1. Verklag og heimildir til launaðra fjarvistar á vinnutíma

 

  • Ferðir til heimilis-, sérfræði- og tannlækna, í mæðravernd, bólusetningar, rannsóknir að fyrirmælum læknis, reglubundnar forvarnarannsóknir s.s. krabbameinsskoðanir flokkast sem launuð fjarvist og skráist sem læknisferð. Starfsfólk í vaktavinnu/skertum starfshlutföllum skulu eftir bestu getu reyna haga læknisferðum utan vinnutíma eins og hægt er.
  • Ef læknir gefur út vottorð fyrir því að starfsmaður skuli sækja sálfræðitíma eða sjúkraþjálfun flokkast það sem launuð fjarvist.
  • Þurfi starfsmaður að sækja læknisþjónustu utan Rangárvallasýslu skráist sá tími sem tekur starfsmann að koma sér frá vinnu og aftur til baka sem læknisferð.
  • Ferðir starfsmanns til heimilis- eða sérfræðilæknis með barn sitt á grunnskólaaldri, ef ekki er hægt að koma þeim við á öðrum tíma. Fjarvistir vegna læknisheimsókna vegna barns skal skrá sem læknisferð.
  • Veikindi starfsmanns er launuð fjarvist upp að þeim rétti sem viðkomandi á í veikindaleyfi skv. starfstíma og kjarasamningi og skal skrá sem veikindi starfsmanns.
  • Veikindi barns á grunnskólalaldri er launuð fjarvist upp að þeim rétti sem viðkomandi skv. kjarasamningi og skal skrá sem veikindi barns.
  • Hefðbundin foreldraviðtöl í leik- og grunnskóla sem haldin eru tvisvar sinnum á hverju skólaári flokkast sem launuð fjarvist.
  • Starfsfólk getur óskað eftir leyfi yfirmanns til launaðar fjarvistar til að vera við jarðarför nákomins ættingja/aðstandanda skv. kjarasamningi. Nákominn ættingi er maki, foreldri, barn, afi, amma, tengdaforeldri, systkini, börn systkina og maki systkina.

Öll önnur fjarvist en sú sem talin er upp hér að ofan skal tekin sem orlof, launalaust leyfi eða uppsafnaða styttingu/tilfærslu vinnutíma.

  1. Verklag og heimildir til ólaunaðrar fjarvistar á vinnutíma

Ef ekki er hægt að sinna nauðsynlegum einkaerindum í frítíma, t.d. að mæta á viðburð í skóla barns, nudd eða sækja jarðarför þar sem ekki er um að ræða nákominn ættingja/aðstandanda, þarf starfsmaður að ganga úr skugga um að heimild yfirmanns liggi fyrir, fjarvistin sé möguleg fyrir starfsemi vinnustaðarins og hafa samráð við samstarfsmenn. Starfsmaður stimplar sig út við brottför og inn við komu.

 

  1. Tilkynningar um veikindi starfsmanns og veikindi barna

Hver vinnustaður skal setja sér verklagsreglur um tilkynningar veikindafjarvista og hvenær skuli skila veikindavottorðum.

Ef veikindin vara lengur en einn dag þarf að láta vita á hverjum degi nema að annað sé ákveðið í samtali starfsmanns og yfirmanns.

Eftir mánaðar veikindaleyfi eða lengur þarf starfsmaður að skila inn starfshæfnivottorði um að hann sé orðinn starfshæfur.

 

Samþykkt af byggðarráði Rangárþings ytra þann 26. mars 2025.