Meginmarkmið mannauðsstefnunnar er að efla Rangárþing ytra sem eftirsóknarverðan vinnustað, þar sem starfsfólk er boðið upp á jákvætt vinnuumhverfi og tækifæri til að til að eflast og þróast í starfi, þannig að í sameiningu geti það veitt íbúum og öðrum þjónustuþegum sem besta þjónustu. Fjögur leiðarljós liggja til grundvallar mannauðsstefnunni:

  • Áhersla er lögð á að fagna fjölbreytileika samfélagsins og ávallt lögð áhersla á jákvæð samskipti á vinnustöðum sveitarfélagsins.
  • Áhersla er lögð á efla heilbrigt starfsumhverfi og heilsueflandi samfélag.
  • Hvatt er til símenntunar þannig að starfsfólk fái tækifæri til að þroskast og dafna í starfi í takt við síbreytilegt starfsumhverfi.
  • Sveitarfélagið er fjölskylduvænn vinnustaður þar sem áhersla lögð á að starfsfólk hafi tækifæri til að samræma vinnu og fjölskylduábyrgð.

Mannauðsstefnan nær til allra stofnana sveitarfélagsins, sem er falin nánari útfærsla á einstökum þáttum stefnunnar og framkvæmd, ásamt því að tryggja að öllu starfsfólki sé stefnan kunn.

Ráðningar og starfskjör

Rangárþing ytra leitast ávallt við að ráða hæft og framsækið starfsfólk, sem er virðisaukandi fyrir vinnustaðinn og sveitarfélagið. Fylgt er vönduðum stjórnsýsluháttum við ráðningar og samræmdum verkferlum. Öll störf eru auglýst nema þegar um afleysingastörf, tímavinnustörf, tímabundnar ráðningar eða tilfærslu í starfi er að ræða. Öllum umsóknum um auglýst störf er svarað eftir að ráðningarferli lýkur.

Hjá Rangárþingi ytra skulu vera til gildar starfslýsingar fyrir öll störf, þar sem fram koma meginþættir starfs og markmið, kröfur um þekkingu, menntun, hæfni, reynslu og ábyrgð. Í samræmi við jafnréttisáætlun sveitarfélagsins er markmið að jafna hlut kynjanna í störfum og að vinnustaðir endurspegli fjölbreytileika samfélagsins. Þá greiðir sveitarfélagið starfsfólki jöfn laun og sömu kjör fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Við ákvörðun launa skal horft til kjarasamninga og starfsmats og ætíð gætt jafnréttissjónarmiða.

Ekki skal ráðið í ný föst störf án þess að viðkomandi yfirmaður stofnunar eða sviðs, í samráði við viðkomandi nefnd/stjórn, skili kostnaðarmati og greinargerð um starfið og þörf fyrir ráðningu í það til sveitarstjórnar Rangárþings ytra/Oddi/Byggðaráð. Stöðugildi eru ákveðin í fjárhagsáætlun hvers árs og skal starfið ekki auglýst fyrr en stöðugildisheimild er veitt af sveitarstjórn.

Móttaka nýliða

Tekið er vel á móti nýju starfsfólki með markvissri nýliðaþjálfun sem er í höndum viðkomandi stofnunar, til að tryggja að nýtt starfsfólk komist hratt og vel inn í starfið og að þeir viti til hvers er ætlast af þeim og hvað þarf til að ná árangri í starfinu.

Starfsþróun og vöxtur

Sveitarfélagið leggur mikla áherslu á að þróa hæfni og þekkingaröflun starfsfólks og það hvatt til að leita sífellt leiða til að þróa sig í starfi í samráði við næsta yfirmann og með þarfir vinnustaðarins í huga og stefnu sveitarfélagsins. Í árlegu starfsmannasamtali er farið yfir kröfur og hæfnisþætti í starfslýsingu og gerð sameiginleg áætlun um starfsþróun fyrir næsta ár.

Starfsumhverfi og samskipti

Lögð er áhersla á jákvæð og uppbyggleg samskipti og markvissa endurgjöf, til að styðja við starfsánægju og árangur í starfi. Starfsfólk skal leggja sitt af mörkum til að skapa jákvætt og vinsamlegt andrúmsloft á vinnustað og gagnkvæm virðing ríki milli þess. Ávallt skal haft að leiðarljósi að skapa aðstæður til að auka vellíðan og heilbrigði starfsfólks. Tryggt skal að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustað sé í samræmi við lög og reglugerðir.

Rangárþing ytra hefur sett sér skýrar stefnu gegn einelti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi og er sú stefna órjúfanlegur partur af mannauðsstefnunni. Allt starfsfólk á rétt á því að komið sé fram við það af virðingu og það sæti ekki einelti, kynbundnu eða kynferðislegu áreiti né ofbeldi. Slíkt er óheimilt samkvæmt lögum og er ekki undir neinum kringumstæðum umborið á vinnustöðum sveitarfélagsins.

Stjórnun og forysta

Stjórnendur hjá Rangárþingi ytra eru sveitarstjóri og forstöðumenn stofnana. Þeir bera ábyrgð á stjórn og skipulagi starfa sem undir þá heyra. Lögð er brýn áhersla á hæfni stjórnenda og að þeir tileinki sér stjórnunarhætti í anda mannauðsstefnunnar og markmiða stofnana sveitarfélagsins.

Stjórnendur skulu kappkosta að vera í góðum tengslum, og jafnframt að hafa gott samstarf, við stjórnir og nefndir sveitarfélagsins. Stjórnendur hafa eftirfarandi að leiðarljósi:

  • Stjórnendur skulu leitast við að upplýsa starfsfólk, sem heyrir undir þeirra svið reglulega um starfsemi sveitarfélagsins og allar ákvarðanir og breytingar er varða starfssvið þeirra.
  • Stjórnendur skulu leggja sig fram um að stuðla að öruggu og jákvæðu starfsumhverfi og með því efla starfsánægju starfsfólks og liðsheildina. Þeir skulu kappkosta að leysa ágreiningsefni sem kunna að koma upp á vinnustað sem allra fyrst.
  • Stjórnendur leggi sig fram við að vinna samkvæmt þjónandi forystu.
  • Stjórnendur skulu veita starfsfólki reglulega endurgjöf á frammistöðu í starfi, meðal annars í gegnum árleg starfsmannaviðtöl.

Hlutverk stjórnenda er að:

  • Vinna starfsáætlanir í samráði við starfsfólk og dreifa ábyrgð.
  • Huga að upplýsingaflæði til starfsfólks sé gott.
  • Byggja upp jákvætt starfsumhverfi sem eflir liðsheildina.

Viðvera og fjarvistir

Til að halda utan viðveru starfsfólks, þ.e. tíma- og fjarvistaskráningar, er notast við viðverukerfi. Hver og einn starfsmaður ber ábyrgð á sínum tímum og að vinnuskýrslan sé rétt. Nánari útlistun á viðveruskráningu er hjá hverri stofnun fyrir sig en miðmið fyrir viðveru og fjarvistir eru samræmdar hjá stofnunum sveitarfélagsins. Starfsfólki sé sýnd umhyggja og aðhald í tengslum við fjarveru og stuðlað er að farsælli endurkomu til vinnu eftir langtímaveikindi.

Jafnrétti og fjölbreytileiki

Rangárþings ytra leggur áherslu á að tryggja jafnrétti og fjölbreytileika og er jafnréttisáætlun sveitarfélagsins órjúfanlegur partur af mannauðsstefnunni. Leitast skal við að skapa starfsfólki aðstæður til að samræma starf- og fjölskylduábyrgð eins og kostur er. Starfsfólk skal eiga kost á sveigjanleika í starfi, s.s. hlutastörfum, sveigjanlegum vinnutíma og fjarvinnu eftir því sem aðstæður framast leyfa.

Starfslok

Starfsfólki gefst kostur á sveigjanlegum starfslokum vegna aldurs t.d. með því að draga úr ábyrgð og minnka starfshlutfall. Starfsfólk skal láta af störfum eigi síðar en í lok þess mánaðar sem þau verða 70 ára, eða í samræmi við gildandi kjarasamninga hverju sinni.

 

Mannauðsstefna er samþykkt af sveitarstjórn. Sveitarstjóri ber ábyrgð á að unnið sé eftir stefnunni og að hún sé endurskoðuð á hverju kjörtímabili.

Gildistími, samþykkt af sveitarstjórn þann 12. febrúar 2025.