Reglur um vinnufatnað og fatastyrk starfsfólks Byggðasamlags Odda bs.

Eftirfarandi reglur gilda um fatnað sem stofnun útvegar starfsfólki vegna vinnu sinnar og fatastyrki starfsfólks þar sem við á.

  1. Reglur um meðferð fatnaðar í eigu stofnunar

1.1 Eftirfarandi atriði skulu uppfyllt þegar starfsmanni er lagður til fatnaður:

  • Fatnaður sem lagður er til af Byggðasamlagi Odda eða sveitarfélaginu er eign þess.
  • Vinnufatnaður skal skilmerkilega merktur.
  • Þar sem því verður við komið, skal vinnufatnaður skilinn eftir á vinnustað að loknum vinnudegi.
  • Starfsmenn skulu fara vel og samviskusamlega með vinnu- og hlífðarfatnað.
  • Vinnuveitandi skal sjá um þrif og viðgerðir á öryggis- og hlífðarfatnaði.
  • Er starfsmaður lætur af starfi, skal hann skila síðasta vinnu-, hlífðar og einkennisfatnaði er hann fékk.
  • Sé starfsmanni afhentur vinnufatnaður til eignar (ekki hlífðar- eða öryggisfatnaður) skal hann sjálfur sjá um hreinsun og viðhald hans.

1.2 Leikskólar Odda bs. útvega eftirfarandi hlífðarfatnað sem er í þeirra eigu:

  • Úlpur
  • Kuldagalla
  • Regngalla (stakkur og buxur)
  • Mannbrodda

1.3 Grunnskólar Odda bs. útvega eftirfarandi hlífðarfatnað fyrir starfsfólk sem sinnir útikennslu eða gæslu í frímínútum sem er í eigu grunnskólanna:

  • Úlpur
  • Kuldagalla
  • Regngalla (stakkur og buxur)
  • Mannbrodda

 

  1. Fatastyrkur starfsfólks Odda bs.

2.1 Starfsfólk leikskóla allt starfsfólk leikskóla Odda bs. óháð stéttarfélagi fær fatastyrk í nóvember ár hvert gegn framvísun á kvittun fyrir fatakaupum. Þar sem um er að ræða átaksverkefni til að fjölga starfsfólki með kennaramenntun í leikskólum Odda bs. þá gildir fatastyrkur leikskóla fyrir allt starfsfólkið, einnig félagsmenn KÍ.

2.2 Starfsfólk grunnskóla félagsmenn stéttarfélaganna BSRB og VLFS fá fatastyrk í nóvember ár hvert gegn framvísun á kvittun fyrir fatakaupum.

  • Kennarar sem sinna mikilli útikennslu skulu hafa aðgang að útifatnaði sem er í eigu grunnskólanna.
  • Kennarar sem sinna sundkennslu eiga rétt á fatastyrk skv. þrepaskiptingu í gr. 2.3. gegn framvísun kvittunar á fatakaupum.

2.3 Greiðslur og upphæðir fatastyrks

Kvittunum fyrir fatakaupum skal skilað inn til skólastjórnanda og er styrkurinn greiddur út í nóvember ár hvert. Ef starfsmaður hættir á árinu er fatastyrkur greiddur út í beinu hlutfalli við þann tíma sem hann hefur starfað af árinu gegn framvísun kvittunar. Upphæð fatastyrks skiptist í 3 þrep út frá starfshlutfalli starfsmanns:

Þrepaskipting:

  • Þrep 1 (0%-49% starfshlutfall) – 12.500 kr.
  • Þrep 2 (50%-74% starfshlutfall) – 18.500 kr.
  • Þrep 3 (75-100% starfshlutfall) – 25.000 kr.

Upphæð fatastyrks hækkar 1. janúar ár hvert. Upphæðir ráðast af hækkun á vísitölu neysluverðs.

 

Samþykkt af stjórn Odda bs. þann 4. mars 2025.