6. fundur 04. desember 2023 kl. 08:30 - 10:00 Suðurlandsvegi 1-3
Nefndarmenn
  • Magnús H. Jóhannsson formaður
  • Viðar M. Þorsteinsson aðalmaður
  • Gústav Magnús Ásbjörnsson aðalmaður
  • Björk Grétarsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Haraldur Birgir Haraldsson
Fundargerð ritaði: Birgir Haraldsson Skipulags- og byggingarfulltrúi

1.Aðgerðaráætlun fyrir ungt fólk í dreifbýli

2311020

Meðfylgjandi aðgerðaráætlun er afrakstur vinnu 25 ungmenna á Norðurlöndunum sem komu saman og mynduðu norrænt ungmennaráð. Ræddu þau lykilaðgerðir til að berjast gegn stöðnun samfélaga í dreifbýli og auka aðdráttarafl landsbyggðanna fyrir ungt fólk.
Umhverfis-, hálendis- og samgöngunefnd fagnar útkomu skýrslunnar. Í henni koma fram tillögur að aðgerðum sem styðja við ungt fólk á dreifbýlum svæðum. Lagt fram til kynningar.

2.Keldur. Vermitjarnir í landi Keldna. Tilkynning framkvæmdaaðila

2310027

Lýður Skúlason og Guðmundur Ingi Hjartarson hafa sent Skipulagsstofnun meðfylgjandi tilkynningu móttekin 7. september 2023, um Vermitjarnir í landi Keldna við Eystri Rangá skv. 19. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.

Í samræmi við 20. gr. laga nr. 111/2021 er hér með óskað eftir að Rangárþing Ytra gefi umsögn um ofangreinda framkvæmd
Vísað er til og tekið er undir afgreiðslu skipulagsnefndar Rangárþings ytra frá 18. fundi, 2. nóv. 2023.

Umhverfis-, hálendis- og samgöngunefnd fjallaði um tilkynningu framkvæmdaraðila og hefur eftirfarandi athugasemdir:
>
Margar staðhæfingar eru um áhrif verkefnisins á uppgræðslu, skógrækt og fuglalíf, en fæstar þeirra studdar miklum rökum. Það vantar því mjög upp á að þessum þáttum séu gerð nægilega góð skil í tilkynningunni.
>
Framkvæmdaraðili dregur fram jákvæð umhverfisáhrif, en nefnir ekki þau neikvæðu. Sem dæmi, þá er ekkert fjallað um hugsanleg áhrif verkefnisins á staðbundinn urriðastofn sem finnst í ánni, fyrir utan önnur áhrif á lífríki.
>
Ekki er ljóst skv. skýrslu fiskifræðinganna (Jóhannesar Sturlaugssonar og Björns Theódórssonar) hvort þeir mæli með gerð vermitjarna. Í skýrslunni kemur fram að hitastig og hitastigssveiflur í ánni ættu ekki að hafa neikvæð áhrif á vöxt eða lifun seiða og þar með er ekki hægt að sjá mikil rök fyrir því að vermitjarnir séu nauðsynlegar.
>
Verkefnið í heild sinni, um að gera efri hluta Eystri Rangár færa laxi, felur í sér ýmiskonar framkvæmdir og hugmyndin um gerð vermitjarna er aðeins einn þáttur þess. Mikilvægt er að meta umhverfisáhrif alls verkefnisins í heild sinni í stað þess að meta áhrif eins þáttar eins og hér er lýst.

3.Þingskálavegur, Heiði-Bolholt. Umsókn um framkvæmdaleyfi

2310040

Vegagerðin óskar eftir framkvæmdaleyfi til að endurbyggja Þingskálaveg milli slitlagsenda frá Heiði að Örlygsstaðamelum. Fyrirhugað er að endurbyggja veginn og leggja á hann bundið slitlag á um 7,5 km kafla. Jafnframt er fyrirhugað að færa veginn að hluta við Heiðarlæk og setja nýtt stálræsi þar í nýrri veglínu. Skipt verður um nokkur önnur ræsi á framkvæmdasvæðinu og önnur lagfærð þar sem það á við. Umsókn barst 13.10.2023. Sveitarstjórn hefur samþykkt að gefið verði út framkvæmdaleyfi.
Umhverfis-, hálendis- og samgöngunefnd gerir ekki athugasemd við framkvæmdina. Hún er kærkomin viðbót og bætir samgöngur fyrir íbúa og ferðamenn.

4.Minnivallanáma matskyldufyrirspurn

2311040

Fyrirhuguð er efnistaka á allt að 30.000 m3 af efni á 2,4 ha svæði úr Minnivallanámu í tengslum við enduruppbyggingu Hvammsvegar. Náman er í landi Minni-Valla í sveitarfélaginu Rangárþingi Ytra. Nú þegar hafa verið unnir um 20.000 m3 af efni úr námunni á um 1,4 ha svæði en skv. aðalskipulagi er heimilt að vinna allt að 50.000 m3 . Efnistaka mun fara fram innan núverandi efnistökusvæðis sem þegar er raskað og á 1 ha óröskuðu svæði. Framkvæmdaraðili er Landefni ehf. Efnistökusvæðið er staðsett innan fjarsvæðis vatnsverndar. Í samræmi við 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og áætlana nr. 111/2021 er framkvæmdin því tilkynningarskyld til ákvörðunar um matsskyldu. Skipulagsstofnun óskar eftir umsögn Rangárþings ytra.
Í samræmi við 6. gr. laga nr. 106/2000 hefur Umhverfis-, hálendis- og samgöngunefnd Rangárþings ytra farið yfir tilkynningu framkvæmdaraðila. Álit nefndarinnar er að áframhaldandi efnisvinnsla úr námunni, þrátt fyrir stækkun að 2,4 ha, sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. viðmið í 2. viðauka laga nr. 106/2000.

5.Minni-Vellir. Umsókn um framkvæmdaleyfi til efnistöku

2311006

Verkfræðistofan Efla, fyrir hönd Landefni ehf, óskar eftir framkvæmdaleyfi til efnistöku úr Minnivallanámu E30. Fyrirhuguð er efnistaka allt að 30.000 m3 af efni en heimilt er að vinna allt að 50.000 m3 af efni samkvæmt aðalskipulagi. Hingað til hafa 20.000 m3 af efni verið unnir á 1,4 ha svæði. Heildar flatarmál raskaðs svæðis kemur til með að vera 2,4 að efnistöku lokinni. Sveitarstjórn hefur samþykkt að gefið verði út framkvæmdaleyfi. Breytingar á greinargerð aðalskipulagsins er í vinnslu ásamt því að búið er að senda matsskyldufyrirspurn til Skipulagsstofnunar.
Þar sem sveitarstjórn hefur samþykkt framkvæmdaleyfi fyrir efnistökunni gerir Umhverfis-, hálendis- og samgöngunefnd ekki athugasemdir við það í sjálfu sér.

6.Landmannalaugar, pallur á laugasvæði. Kæra 101-2023 vegna ákvörðunar sveitarstjórnar.

2308020

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sendir afrit kæru dags. 15. ágúst 2023 ásamt fylgiskjölum, móttekið af nefndinni s.d., vegna afgreiðslu sveitarfélagsins Rangárþings ytra, á framkvæmdaleyfi til Umhverfisstofnunar vegna uppbyggingar og endurnýjunar á búningsaðstöðu við náttúrulaugina í Landmannalaugum. Farið yfir stöðu málsins.
Kæra Náttúrugriða um ákvörðun sveitarstjórnar um leyfi vegna byggingar palls á laugasvæði Landmannalauga ásamt úrskurði nefndar umhverfis- og auðlindamála og Skipulagsstofnunar var kynnt fyrir nefndinni.
Umhverfis-, hálendis- og samgöngunefnd bendir á að ekki megi missa sjónar af markmiðum þeirra umbóta sem ráðist hefur verið í og eru fyrirhugaðar. Umbæturnar snúast að öllu leyti um vernd náttúrunnar í Landmannalaugum og að leita jafnvægis á milli hóflegrar nýtingar þessara náttúrugæða án þess að ganga á þau. Gerð nýs palls við laugarnar er einmitt til þess að vernda náttúrugæði.
Það verður ekki horft framhjá því að Landmannalaugar hafa mikið aðdráttarafl og ferðamenn sækja þangað í þúsundatali. Í þessu sambandi tekur Umhverfis-, hálendis- og samgöngunefnd undir áskorun sveitarstjórnar frá 8. nóv. 2023 til Umhverfisstofnunar um að íhuga alvarlega takmörkun á fjölda ferðamanna að Landmannalaugum ef engar úrbætur verða heimilaðar.

7.Landmannalaugar, bílastæði. Kæra 110-2023 vegna ákvörðunar sveitarstjórnar.

2309042

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sendir afrit kæru dags. 13.9.2023, móttekin af nefndinni sama dag. Kærð er ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra 13. september 2023 um að veita Rangárþingi ytra framkvæmdaleyfi vegna gerðar grjótvarnargarðs við fyrirhugað bílastæði við Námskvísl. Farið yfir stöðu málsins
Kæra Náttúrugriða um ákvörðun sveitarstjórnar um að veita Rangárþingi ytra framkvæmdaleyfi vegna gerðar grjótvarnargarðs var kynnt fyrir nefndinni. Kæran hefur valdið því að styrkur sem Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitti Rangárþingi ytra árið 2017 er í hættu og óljóst hvað verður.
Umhverfis-, hálendis- og samgöngunefnd bendir á að ekki megi missa sjónar af markmiðum þeirra umbóta sem ráðist hefur verið í og eru fyrirhugaðar. Umbæturnar snúast að öllu leyti um vernd náttúrunnar í Landmannalaugum og að leita jafnvægis á milli hóflegrar nýtingar þessara náttúrugæða án þess að ganga á þau. Stækkun og breyting á skipulagi bílastæðisins við Námskvíslina er einmitt til þess að vernda náttúrugæði.
Það verður ekki horft framhjá því að Landmannalaugar hafa mikið aðdráttarafl og ferðamenn sækja þangað í þúsundatali. Í þessu sambandi tekur Umhverfis-, hálendis- og samgöngunefnd undir áskorun sveitarstjórnar frá 8. nóv. 2023 til Umhverfisstofnunar um að íhuga alvarlega takmörkun á fjölda ferðamanna að Landmannalaugum ef engar úrbætur verða heimilaðar.

8.Iceland Hill rally 2024

2311059

Lögð er fram beiðni f.h. keppnisstjórnar um leyfi fyrir akstursíþróttakeppninni CanAm Iceland Hill Rally 2024.
Umhverfis-, hálendis og umhverfisnefnd heimilar fyrir sitt leyti að keppnin fari fram á vegum sem tilgreindir eru í umsókn innan sveitarfélagsins í ágúst 2024. Vakin er athygli á því að leita þarf umsagnar fleiri aðila þar sem ekki allir vegir tilheyra sveitarfélaginu Rangárþingi ytra. Aðrir aðilar eru m.a. Landsvirkjun og Vegagerðin. Nefndin setur eftirfarandi skilyrði:
1. Forsvarsmenn keppninnar gæti þess að fylgt verði merktum leiðum og ekki sé ekið utan vega.
2. Keppnishaldari upplýsi þá aðila sem hafa með skipulagðar ferðir á svæðinu að gera vegna keppninnar. Þá sérstaklega rekstraraðila í Hrauneyjum, Landmannahelli og Áfangagili sem og aðra ferðaþjónustuaðila á svæðinu.
3. Mönnuð vöktun verði á öllum lokunarpóstum.
4. Þess sé gætt að allur frágangur verði til fyrirmyndar. Þeir vegir sem farið verði um verði heflaðir á kostnað keppnishaldara strax að keppni lokinni. Allar merkingar og allt rusl verði fjarlægt af hálfu keppnishaldara.
5. Keppnishaldari tryggi að almenningur á svæðinu verði ekki fyrir óþarfa óþægindum á meðan kynningarakstur fer fram fyrir keppni.
Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri fór yfir áherslur málsins og skýrði út afstöðu Byggðaráðs.

9.Vikurvinnsla. Hekluvikur

2306010

Farið yfir stöðuna á vikurvinnslu í Merkihvolslandi.
Kynnt niðurstaða Byggðaráðs frá fundi þeirra 22.11.2023.
Farið var yfir minnisblað frá Haraldi Birgi Haraldssyni skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings ytra um vikurnámið við Búrfell. Umhverfis-, hálendis- og samgöngunefnd er sammála um að sé vilji hjá sveitarstjórn að leyfa áfram efnistöku á svæðinu, verði farið eftir lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021 en þar kemur skýrt fram að efnistaka/vinnsla auðlinda úr jörðu þar sem áætlað er að raska 25ha svæði eða meira er ávallt háð mati á umhverfisáhrifum, skv. lið 2,01 í 1. viðauka laganna.
Sveitarstjóri víkur af fundi og er þökkuð góð yfirferð.

10.Landmannalaugar. Beiðni Náttúrugriða um endurupptöku umhverfismats.

2308060

Skipulagsstofnun hefur ákveðið að vísa frá beiðni Náttúrugriða ehf um endurupptöku á áliti stofnunarinnar frá 13. júlí sl um mat á umhverfisáhrifum þjónustumiðstöðvar í Landmannalaugum.
Umsókn Náttúrugriða um endurupptöku á áliti Skipulagsstofnunar frá 13. júlí 2023 ásamt úrskurði stofnunarinnar um umsóknina var kynnt fyrir nefndinni. Nefndin telur ekki ástæðu til að bregðast við.
Fylgiskjöl:

Fundi slitið - kl. 10:00.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?