4. fundur 13. september 2023 kl. 15:15 - 16:45 Suðurlandsvegi 1-3
Nefndarmenn
  • Magnús H. Jóhannsson formaður
  • Viðar M. Þorsteinsson aðalmaður
  • Fjóla Kristín B. Blandon aðalmaður
  • Gústav Magnús Ásbjörnsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Haraldur Birgir Haraldsson
Fundargerð ritaði: Birgir Haraldsson Skipulags- og byggingarfulltrúi

1.Göngu- og hjólreiðastígar

2309029

Farið yfir stöðu á göngu- og hjólreiðastígum í sveitarfélaginu.
Rætt almennt um ástand stíga í sveitarfélaginu og farið yfir yfirlit um ástand þeirra. Ástand margra þeirra hefur batnað á undanförnum árum og nauðsynlegt að halda þeim við. Nefndin leggur áherslu á að stígar á Hellu verði skoðaðir sérstaklega m.t.t. umferðar barna og öryggis þeirra, sérstaklega þar sem stígar liggja þvert á umferðargötur. Rætt var að auki um göngustíginn meðfram Ytri Rangá sem liggur frá Hellu niður að Ægissíðufossi. Þarna er náttúrufegurð mikil og leiðin gæti verið mikið aðdráttarafl fyrir gesti og „gangandi“. Nefndin leggur til við sveitarstjórn að fjármagni verði veitt í að gera við stíginn þannig að sómi sé að og auglýsi gönguleiðina sérstaklega t.d. með uppsetningu gönguleiðaskiltis við Miðjuna.

2.Umhverfisverðlaun 2023

2309028

Undirbúningur vegna veitingar umhverfisverðlauna fyrir árið 2023.
Í tilefni dags íslenskrar náttúru 16. sept, hefur verið ákveðið að veita Meltu ehf. umhverfisviðurkenningu Rangárþings ytra árið 2023. Melta, áður Jarðgerðarfélagið, hefur unnið með Sorpstöð Rangárvallasýslu í nokkur ár við að þróa nýja aðferð við meðhöndlun og vinnslu lífræns heimilisúrgangs. Aðferðin byggir á gerjun efnisins við súrefnisfirrtar aðstæður með s.k. Bokashi aðferð sem er talsvert ólík hefðbundinni moltugerð. Björk Brynjarsdóttir og Julia M. Brenner hafa leitt þessa vinnu, en fyrir utan aðferðina sjálfa, er markmið þeirra að fólk hugsi betur um þessa auðlind sem lífrænn heimilisúrgangur er og stuðli að heilbrigðri nýtingu efnisins í anda hringrásarhagkerfisins t.d. til uppgræðslu. Öll samskipti um þróun verkefnisins og samstarf við íbúa hafa verið einstaklega jákvæð og með viðurkenningunni fylgja vonir um áframhaldandi samstarf og íslenskri náttúru til heilla.

3.Námur og efnistökusvæði

2309027

Samantekt á efnistökusvæðum í aðalskipulagi, tengt vinnu við auðlindastefnu sveitarfélagsins.
Skoðað var yfirlit yfir námur og efnistökusvæði innan sveitarfélagsins. Óljóst er hvaða samningar liggja fyrir um þessi svæði, en Heilbrigðiseftirlit Suðurlands ber ábyrgð á að halda utan um virk starfsleyfi séu þau til. Rætt var sérstaklega um stærsta námusvæði innan sveitarfélagsins við Búrfell, þar sem grafið er eftir vikri til útflutnings. Samningur um námuvinnsluna er í gildi, en rennur út um næstu áramót. Nefndin leggur til að farið verði sérstaklega yfir skilyrði námugraftar á þessu svæði og skoðað hvort sveitarfélaginu hugnist áframhaldandi námugröftur.

Fundi slitið - kl. 16:45.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?